University of Iceland - Landspitali - University of Reykjavik
The sciences on computation of human movement, modeling, treatment planning and device design

16.11.2013 09:04

Heilbrigðistæknisetur LSH og HR

Nýtt Heilbrigðistæknisetur Landspítala og HR

Landspítali og Háskólinn í Reykjavík hafa skrifað undir samstarfssamning um þjónustu, rannsóknir og kennslu á sviði heilbrigðisverkfræði og stofnun Heilbrigðistækniseturs.

Markmið samningsins er að skapa umgjörð og sérhæfða aðstöðu við HR og LSH fyrir kennslu, rannsóknir og þróunarverkefni á sviði heilbrigðisverkfræði m.a. með því að koma á fót Heilbrigðistæknisetri. Setrið er rekið sameiginlega á vegum LSH og HR og er staðsett í húsnæði HR. Þar verður rekin sú vísinda- og þróunarstarfsemi sem greininni er nauðsynleg og nýtist jafnt deildum LSH og HR. Heilbrigðisverkfræði hefur verið kennd við tækni- og verkfræðideild HR undanfarin átta ár og hefur verið óformlegt samstarf milli aðila frá upphafi.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, segir samninginn afar mikilvægan til þess að tryggja framþróun í heilbrigðisverkfræði, bæði hvað varðar tæknina sjálfa og þann mannauð sem nauðsynlegur verður til þess að sinna lækningatækjum og hvers kyns tækni til lækninga. „Við á Landspítala fögnum því að vera virkir þátttakendur í þessari vegferð.“

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, sagði samninginn verða staðfestingu á góðu samstarfi háskólans við Landspítalann í námi og rannsóknum. „ Landspítali hefur meðal annars verið bakhjarl náms í heilbrigðisverkfræði. Með þessum samningi  festum við samstarfið í sessi og styrkjum það til framtíðar.  Þetta er mikilvægt skref, því þróun og nýting nýrrar tækni er stór þáttur í framþróun heilbrigðismála og því er mikilvægt að vel sé búið um þetta góða samstarf okkar um tækniþróun í þágu heilbrigðisvísinda.“

Samkvæmt samningnum mun Háskólinn í Reykjavík annast menntun háskólanema í heilbrigðisverkfræði og bera faglega ábyrgð á kennslu greinarinnar auk þess að standa fyrir rannsóknum á sviði heilbrigðisverkfræði. HR mun taka þátt í þróun á tækni og notkun hennar við lækningar, hjúkrun og aðrar greinar á Landspítala. Þá mun Landspítali koma að verklegu námi nemenda í heilbrigðisverkfræði við HR og leggja til húsnæði og aðstöðu fyrir þá meðan þeir eru í verknámi.

Samkvæmt samningnum skal stefnt að því að útvíkka samstarf Háskólans í Reykjavík og Landspítala þannig að það nái yfir fleiri starfssvið og aðila.


Frá vinstri: Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga við LSH, Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir vísindadeildar Landspítalans, Ari Kristinn Jónsson, rektor HR,  Páll Matthíasson, forstjóri LSH, Haraldur Auðunsson, sviðsstjóri heilbrigðissviðs tækni- og verkfræðideildar HR og Guðrún Sævarsdóttir, deildarforseti tækni- og verkfræðideildar.

Today's page views: 142
Today's unique visitors: 30
Yesterday's page views: 27
Yesterday's unique visitors: 9
Total page views: 44963
Total unique visitors: 13087
Updated numbers: 3.4.2025 22:48:07